Hálskirtlataka

HIKIÐ EKKI VIÐ AÐ HRINGJA EF EINHVER VANDAMÁL EÐA SPURNINGAR KOMA UPP


Undirbúningur fyrir aðgerð

 • Mikilvægt er að hafa gert gott hlé á töku á öllum blóðþynnandi lyfjum. Hér er einnig átt við magnyl og skyld bólgueyðandi, hitalækkandi og verkjastillandi lyf. Áhrif slíkra lyfja á storknunarhæfni blóðsins vara í 2 vikur. Sjá lista.
 • Þú átt að vera fastandi á allan mat og drykk frá miðnætti fyrir aðgerð.
 • Kvöldið fyrir aðgerð þarftu að fara í sturtu/bað. Best er að klæðast hreinum, þægilegum fatnaði sem ekki þrengir að í hálsmáli eða mitti.
 • Mæta skal á Handlæknastöðina á upp gefnum tíma en búast má við að einhver bið verði þar til að aðgerð komi.

Við hverju má búast eftir aðgerð

 • Þegar þú vaknar verður þú með litla plastnál í hendinni. Fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina færðu vökva í gegnum nálina.
 • Gera má ráð fyrir verkjum í hálsi, sem oft leiða út í eyrun. Þú færð verkalyf eftir þörfum.
 • Vegna eymsla í hálsi áttu erfitt með að kyngja. Ísvatn og frostpinnar ganga best í byrjun. Mikilvægt er að drekka vel.
 • Búast má við að ljós skán sitji í hálsi í u.þ.b. viku tíma eftir aðgerð. Hún losnar svo af sjálfu sér.
 • Gera má ráð fyrir að vera frá vinnu/skóla í 7 til 10 daga.
 • Eftirblæðingar eru sjaldgæfar en koma fyrir, oftast sama dag og aðgerðin er framkvæmd. Einnig er hætta á blæðingu þegar sárskánin losnar.

Ráðleggingar eftir aðgerð
 • Ef blæðingar verður vart er rétt að hafa samband við aðgerðarlækninn. Ef ekki næst í hann þá hafið strax samband við vakthafandi lækni á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi gegnum skiptiborð sjúkrahússins en síminn er 5431000.
 • Verkir vara allt að 7-10 dögum eftir aðgerðina. Þeir eru verstir fyrst og svo aftur á 4.-6. degi. Oft fylgir sár verkur út í eyrun. Gott er að taka verkjalyf ½ klukkustund fyrir mat. Varastu að taka magnyl og skyld lyf meðan hálsinn er að gróa. Verkirnir eru verstir seinni part nætur og á morgnana.
 • Mikilvægt er að drekka vel. Drekkið glas af vatni á morgnana og fyrir og eftir mat.
 • Ekki er ráðlegt að borða harðan mat (poppkorn, hrökkbrauð, epli o.s.frv.) en allan mjúkan mat er óhætt að borða (s.s. fiski-/kjötbollur, egg, mjólkurmat o.s.frv.). Aðgæta verður að matur og drykkur sé í mesta lagi volgur, ekki heitur.
 • Mikilvægt er að hreinsa vel munn til að forðast sýkingu í hálsi, bursta tennur 3svar sinnum á dag. Varast ber að ræskja sig harkalega.
 • Hiti allt að 38°C er ekki óeðlilegur fyrstu sólarhringana eftir aðgerð. Hafðu samband við lækni fari hiti hækkandi.
 • Haldið kyrru fyrir í u.þ.b. viku eftir aðgerð. Skiljið börn ekki eftir ein heima fyrstu dagana. Forðast ber alla áreynslu, s.s. rembing.