Blöðruþjálfun

Blöðruþjálfun fyrir einstaklinga með ofvirka þvagblöðru.

Blöðruþjálfun er mikilvæg aðferð sem getur hjálpað einstaklingum við að minnka einkenni vegna ofvirkrar þvagblöðru sem, lýsir sér sem tíðum og oft bráðum þvaglátum með eða án þvagleka. Markmiðið með þjálfuninni er að auka þann tíma sem líður á milli þess sem viðkomandi þarf að kasta af sér þvagi og auka þannig rýmd þvagblöðrunnar. Þjálfunin getur dregið úr þvagleka og þvaglátaþörf einstaklingsins. 

Þegar einstaklingur er í blöðruþjálfun þarf hann að fylgja ákveðinni tæmingaráætlun, hvort sem honum er mál að tæma þvagblöðru eða ekki. Ef þörf til að tæma þvagblöðru kemur upp áður en komið er að þvaglátum samkvæmt tæmingaráætlun ætti að reyna að fresta þvaglátum eins og hægt er. Hér eru  nokkrar aðferðir sem gætu hjálpað til við að fresta þvaglátum.

 

Frestunar aðferðir: 

  • Ýmsar slökunaraðferðir. 
  • Grindarbotnsæfingar. 
  • Reyna að beina athyglinni annað. T.d. setjast niður, leggjast útaf, ganga um, krossleggja fætur, standa á tám. 

Til að byrja með hverfur þvaglátaþörfin í stutta stund og kemur svo aftur. Þeim mun lengur sem hægt er að halda í sér því betra. Til að fylgjast með hvort framför verði er gott að halda dagbók um þvag venjur og hægt að skrá tíma sem þvaglátum er frestað, þvagmagn og þvagleka. Fyrir þá sem drekka mikinn vökva getur líka verið gott að fylgjast með því hversu mikið drukkið er. Almennt er einstaklingum ráðlagt að drekka 1500- 2000 ml á sólahring. 

Fyrst um sinn er etv. hægt að fresta þvaglátum um 3-5 mín en eftir því sem á líður lengist sá tími. Ágætt er að stefna að því að lengja tímann um 15-30 mín eftir því sem lengra er komið uns einstaklingur getur haldið látið þvaglát vera á 3-4 tíma fresti. Magn þvags við hver þvaglát ætti að vera a.m.k. 250-300 ml í hvert sinn.   

Dagbók er gott tól til að hjálpa til við að fylgjast með árangri þjálfunarinnar. 

 

Þjálfunar Leiðbeiningar

  • Tæmdu þvagblöðru um leið og þú vaknar að morgni. 
  • Farðu á salernið á ákveðnum tímum. Oft er hægt að gera þetta í samráði við heilbrigðisstarfsmann. Ekki kasta af þér þvagi fyrr en komið er að næsta tíma í skipulaginu. Vertu viss um að tæma þvagblöðruna þrátt fyrir að þú hafi ekki lengur þörf til að gera það. Fylgdu skipulaginu á daginn og farðu einungis á salernið á nóttunni ef þú vaknar og finnur fyrir þvagláta þörf. 
  • Ef þú finnur fyrir þörf til að kasta af þér þvagi áður en tími er kominn til þess skaltu nota “bælingar aðferðir” eða reyna slökun eins og djúpöndun. Einbeittu þér að því að slaka á öllum vöðvum líkamans. Ef möguleiki er á því að setjast niður uns tilfinningin líður hjá skaltu gera það. 
  • Ef þú nærð að bæla niður þörfina skaltu halda áfram að fylgja skipulaginu. Ef þú getur ekki haldið í þér, bíddu í 5 mínútur og farðu svo rólega í átt að salerninu. Þegar þú ert búin að kasta af þér þvagi þá endurstillist skipulagið.  Endurtaktu í hvert skipti sem þvagláta þörf gerir vart við sig. 
  • Þegar þú hefur náð upphaflegu markmiði skaltu smám saman auka þann tíma sem líður á milli tæminga um 15 mínútur. Reyndu að lengja tímann einu sinni í viku. Misjafnt er milli einstaklinga hversu langan tíma tekur að auka tíma sem líður á milli þvagláta. Lengdu tímann milli þvagláta þangað til 3-4 tímar líða milli þvagláta. 
  • Það ætti að taka 6-12 vikur að ná loka markmiði. Ekki gefast upp þó þér finnist ekki alltaf ganga vel. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Eftir því sem líður á muntu sjá að það góðu dögunum fjölgar svo haltu áfram að æfa þig.  
  • Með því að gera grindarbotnsæfingar daglega verður árangurinn af blöðruþjálfuninni betri. Skráningar í dagbók munu hjálpa þér að sjá árangur og varpa ljósi á hvað veldur vandræðum. 

 

Staðreyndir og ráðleggingar: 

  • Ráðlögð vökvainntekt er 1500-2000 ml á sólarhring fyrir fullorðinn einstakling. 
  • Ef vökvainntekt er undir 2000 ml á sólarhring þykir eðlilega að hafa þvaglát 5-7 sinnum á sólarhring og ætti útskilnaður að vera í samræmi við inntöku. 
  • Ef næturþvaglát eru tíð er ráðlagt að drekka ekki vökva eftir kl 20 á kvöldin. 
  • Að fara á salernið til öryggis þegar þvagláta þörf er ekki til staðar er ósiður. Ef þvagblaðra nær ekki að fyllast brenglast skilaboð milli heila og þvagblöðru og rýmd þvagblöðru minnkar með tímanum. Þá verða þvaglát tíðari sem eykur á vandamál hjá einstaklingum með ofvirka þvagblöðru. 

Forhúðarþrengsli

Hvað er forhúðarþrengsli?
Þegar ekki er hægt að draga forhúðina upp er talað um forhúðarþrengsli.

Þetta er eðlilegt ástand hjá nýfæddum drengjum og um 96% þeirra fæðast með þrönga forhúð.  Þetta hlutfall lækkar í um 50% við eins árs aldur, 25% við tveggja ára aldur og um þriggja ára aldurinn eru um 10% ennþá með of þrönga forhúð.  Oftast er því ekki talað um eiginleg forhúðarþrengsli fyrr en um 3-4 ára aldurinn og yfirleitt er beðið með meðferð fram að skólaaldri.

Ef einkenni svo sem óþægindi, endurteknar sýkingar eða erfiðleikar við þvaglát eru til staðar er hugað að meðferð fyrr.

Hvernig eru þau meðhöndluð?

Meðferð er aðalega tvenns konar.

Annars vegar er hægt að prófa að notað barksterasmyrsli sem borið á þrönga svæðið í 2-4 vikur til þess að mýkja húðina svo hægt sé að draga hana upp. Árangur af smyrsla meðferð er misjafn. Hins vegar er framkvæmd aðgerð.

Aðgerðin.
Aðgerðin er framkvæmd í svæfingu og tekur u.þ.b. 10-15 mínútur.

Barnið mætir fastandi til aðgerðar (sjá leiðbeiningar um föstu) og fer heim u.þ.b. 40-60 mínútum eftir að aðgerð lýkur

Í aðgerðinni er gerður langlægur skurður í þrönga húðsvæðið og sár kantarnir síðan saumaðir saman á þvervegin með saumum sem leysast upp af sjálfum sér á um 2-3 vikum.

Fyrst eftir aðgerðina er sáravafningur um typpið sem taka á af fyrir fyrstu þvaglát.

Fyrst eftir aðgerðina er sáravafningur um typpið sem taka á af fyrir fyrstu þvaglát.

Fyrstu tvo sólarhringanna á eftir gæti barnið þurft verkjastillandi meðferð með parasetamoli að hámarki 20mg/kg á 6 tíma fresti. Það má líka gefa íbúfen, eitt og sér eða þá samhliða parasetamóli. Ekki er ráðlegt að gefa fyrsta skammt af parasetamóli fyrr en um 5-6 tímum eftir aðgerð þar sem flest börn fá parasetamól í aðgerðinni.  Það getur sviðið við fyrstu þvaglát eftir aðgerð og ef barn er hrætt og vill ekki pissa hjálpar oft að láta þau pissa í sturtu.

Eftir aðgerðina má barnið gera flest en þó er ekki ráðlegt að fara í sund, heita potta eða bað fyrstu vikuna eftir aðgerðina. Sturta er leyfileg og það má stunda leikfimi og æfingar.

Það á ekki á að byrja að bretta upp forhúðinni fyrr en um einni viku eftir aðgerð vegna bólgu á aðgerðarsvæðinu og yfirleitt ekki fyrr en að loknu eftirliti aðgerðalæknis sem er um viku frá aðgerð. Mikilvægt er þó að aðgerð sé fylgt eftir til lengri tíma með því að bretta reglulega upp á forhúðina við þvaglát og við þvott.

Helstu mögulegir fylgikvillar eftir aðgerð eru sýkingar eða blæðingar og hikið ekki við að hafa samband ef grunur um slíkt kemur upp.

Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir

Hálskirtlataka

Undirbúningur fyrir aðgerð

  • Mikilvægt er að hafa gert gott hlé á töku á öllum blóðþynnandi lyfjum. Hér er einnig átt við magnyl og skyld bólgueyðandi, hitalækkandi og verkjastillandi lyf. Áhrif slíkra lyfja á storknunarhæfni blóðsins vara í 2 vikur. Sjá lista.
  • Þú átt að vera fastandi á allan mat og drykk frá miðnætti fyrir aðgerð.
  • Kvöldið fyrir aðgerð þarftu að fara í sturtu/bað. Best er að klæðast hreinum, þægilegum fatnaði sem ekki þrengir að í hálsmáli eða mitti.
  • Mæta skal á Handlæknastöðina á upp gefnum tíma en búast má við að einhver bið verði þar til að aðgerð komi.

Við hverju má búast eftir aðgerð

  • Þegar þú vaknar verður þú með litla plastnál í hendinni. Fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina færðu vökva í gegnum nálina.
  • Gera má ráð fyrir verkjum í hálsi, sem oft leiða út í eyrun. Þú færð verkalyf eftir þörfum.
  • Vegna eymsla í hálsi áttu erfitt með að kyngja. Ísvatn og frostpinnar ganga best í byrjun. Mikilvægt er að drekka vel.
  • Búast má við að ljós skán sitji í hálsi í u.þ.b. viku tíma eftir aðgerð. Hún losnar svo af sjálfu sér.
  • Gera má ráð fyrir að vera frá vinnu/skóla í 7 til 10 daga.
  • Eftirblæðingar eru sjaldgæfar en koma fyrir, oftast sama dag og aðgerðin er framkvæmd. Einnig er hætta á blæðingu þegar sárskánin losnar.

Ráðleggingar eftir aðgerð

  • Ef blæðingar verður vart er rétt að hafa samband við aðgerðarlækninn. Ef ekki næst í hann þá hafið strax samband við vakthafandi lækni á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi gegnum skiptiborð sjúkrahússins en síminn er 5431000.
  • Verkir vara allt að 7-10 dögum eftir aðgerðina. Þeir eru verstir fyrst og svo aftur á 4.-6. degi. Oft fylgir sár verkur út í eyrun. Gott er að taka verkjalyf ½ klukkustund fyrir mat. Varastu að taka magnyl og skyld lyf meðan hálsinn er að gróa. Verkirnir eru verstir seinni part nætur og á morgnana.
  • Mikilvægt er að drekka vel. Drekkið glas af vatni á morgnana og fyrir og eftir mat.
  • Ekki er ráðlegt að borða harðan mat (poppkorn, hrökkbrauð, epli o.s.frv.) en allan mjúkan mat er óhætt að borða (s.s. fiski-/kjötbollur, egg, mjólkurmat o.s.frv.). Aðgæta verður að matur og drykkur sé í mesta lagi volgur, ekki heitur.
  • Mikilvægt er að hreinsa vel munn til að forðast sýkingu í hálsi, bursta tennur 3svar sinnum á dag. Varast ber að ræskja sig harkalega.
  • Hiti allt að 38°C er ekki óeðlilegur fyrstu sólarhringana eftir aðgerð. Hafðu samband við lækni fari hiti hækkandi.
  • Haldið kyrru fyrir í u.þ.b. viku eftir aðgerð. Skiljið börn ekki eftir ein heima fyrstu dagana. Forðast ber alla áreynslu, s.s. rembing.

Naflakviðslit barna

Orsök
Naflakviðslit er útbungun á nafla sem myndast þegar hluti af görnum og eða vökvi frá kviðarholi þrýstist út um gat á kviðveggnum og situr þar í kviðslitspoka undir húðinni.  Gatið er sá staður sem naflastrengurinn gekk út.

Flest naflakviðslit loka sér sjálkrafa við 3-4 ára aldur. Stundum lokast þó gatið seinnt eða ekki og ósennilegt er að stærri kviðslit (göt stærri en 1,3-1,5 cm) loki sér sjálfkrafa.  Ef svo er og ef einkenni eru til staðar er framkvæma aðgerð. Til eru kviðslit sem eru rétt ofan við naflann og líkjast naflakviðslitum, þau lagast ekki af sjálfum sér.

Einkenni
Oftast valda naflakviðslit litlum einkennum þó að einkenni svo sem verkur og kviðþensla geti verið til staðar.  Svokölluð innklemming (þegar görn klemmist af í kviðslitsopinu) er hættulegasta afleiðing kviðslita en hún er mjög óalgeng i naflakviðslitum. Ef grunur er um innklemmingu, þ.e.a.s. hörð og aum fyrirferð sem ekki er hægt að ýta til baka, ber að fara með barnið undir eins til læknis.

Meðferð
Aðgerðin er framkvæmd í svæfingu og tekur u.þ.b. 15 mínútur.

Gerður er mjög lítill 1-2 cm skurður innan í efri brún naflans og opi á kviðvegg lokað.

Barnið mætir fastandi til aðgerðar (sjá leiðbeiningar um föstu) og fer heim u.þ.b. 30-60 mínútum eftir aðgerð. Fyrstu tvo sólarhringana eftir aðgerð gæti barnið þurft verkjastillandi meðferð með parasetamoli 20mg/kg á 4 tíma fresti.

Eftir aðgerð er ráðlagt að halda barninu frá krefjandi leik eða leikfimi og æfingum í 2 vikur.  Sári skal halda þurru þar til saumar eru teknir en oftast eru þú engir saumar sem þarf að taka.

Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir

Nárakviðslit barna

Orsök
Algengasta tegund nárakviðslits í strákum myndast þegar að gangur sá í nára sem eistu nota til að færast frá kvið og niður í pung (gerist í fósturþroska) lokar sér ekki og kviðslitspoki (útbungun frá lífhimnu) getur bungað út í nárann og jafnvel niður í pung. Pokinn getur svo innihaldið garnir sem smokra sér niður í hann. Nárakviðslit eru óalgengari hjá stúlkum en þó vel þekkt. Þessi kviðslit lagast ekki af sjálfu sér og því þarf að framkvæma aðgerð.

Einkenni
Kviðslitið getur birst sem fyrirferð á nárasvæðinu og/eða í pung á drengjum. Hjá stúlkum koma kviðslit fram við lífbein. Einkennandi er að fyrirferðir þessar geta komið og farið og stækkar oft við áreynslu svo sem grát/hósta eða annað sem veldur auknum þrýstingi í kvið. Fyrir utan fyrirferðina geta einkenni svo sem verkur verið til staðar.

Svo kölluð innklemming er hættulegasta afleiðing nárakviðslita þá klemmist görn af í opi kviðslitspokans og jafnvel getur komið drep í görn. Ef grunur er um innklemmingu, þ.e. hörð og aum fyrirferð sem ekki er hægt að ýta til baka, ber að fara með barnið undir eins til læknis.

Meðferð
Aðgerðin er framkvæmd í svæfingu og tekur u.þ.b. 15 mínútur.Gerður er um 2-3 cm skurður í nára og sem kviðslitspokinn er fjarlægður.

Barnið mætir fastandi til aðgerðar (sjá leiðbeiningar um föstu) og fer heim u.þ.b. 30-60 mínútum eftir aðgerð. Fyrstu tvo sólarhringana eftir aðgerð gæti barnið þurft verkjastillandi meðferð með parasetamoli 20mg/kg á 4 tíma fresti.

Eftir aðgerð er ráðlagt að halda barninu frá krefjandi leik eða leikfimi og æfingum í 2 vikur. Sári skal halda þurru þar til saumar eru teknir en oftast eru þú engir saumar sem þarf að taka.

Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir

Nefaðgerð

Undirbúningur fyrir aðgerð

  • Mikilvægt er að hafa gert gott hlé á töku á öllum blóðþynnandi lyfjum. Hér er einnig átt við magnyl og skyld bólgueyðandi, hitalækkandi og verkjastillandi lyf. Áhrif slíkra lyfja á storknunarhæfni blóðsins vara í 2 vikur. Sjá lista.
  • Þú átt að vera fastandi á allan mat og drykk frá miðnætti fyrir aðgerð.
  • Kvöldið fyrir aðgerð þarftu að fara í sturtu/bað. Best er að klæðast hreinum, þægilegum fatnaði sem ekki þrengir að í hálsmáli eða mitti.
  • Mæta skal á Handlæknastöðina á upp gefnum tíma en búast má við að einhver bið verði þar til að aðgerð komi.

Við hverju má búast eftir aðgerð?

  • Þegar þú vaknar er nefið stíflað af tróði og því verður þú að anda með munninum.
  • Gera má ráð fyrir þrautum í nefi, sem geta leitt upp í enni og út í eyrun, þrýsting í nefi og út í andlitið og sviða í nefi. Þú færð verkalyf eftir þörfum.
  • Búast má við að blóðlitað slím leki út um nasirnar og aftur í kok meðan tróðið er í nefinu.
  • Tróðið er oftast tekið sólarhring eftir aðgerð. Þá fyllist nefið af blóði sem storknar og hylur sárin. Nefið er næstu viku að hreinsa sig af þessu storknaða blóði.
  • Gera má ráð fyrir að vera frá vinnu/skóla í 7 til 10 daga.
  • Eftirblæðingar eru sjaldgæfar en koma fyrir, oftast sama dag og aðgerðin er framkvæmd. Einnig er hætta á blæðingu þegar sárskánir losna.

Ráðleggingar eftir aðgerð

  • Ef blæðing ætlar ekki að stoppa af sjálfu sér er rétt að hafa samband við aðgerðarlækninn. Ef ekki næst í hann þá hafið strax samband við vakthafandi lækni á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi gegnum skiptiborð sjúkrahússins en síminn er 5431000.
  • Verkir vara mislengi eftir aðgerðina. Þeir eru verstir fyrst meðan tróðið stíflar nefið. Taktu verkjalyf eftir þörfum og einnig 2 klukkustundum áður en mætt er til að láta taka tróðið. Varastu að taka magnyl og skyld lyf meðan sárin eru að gróa.
  • Hiti allt að 38°C er ekki óeðlilegur fyrstu sólarhringana eftir aðgerð. Hafðu samband við lækni fari hiti hækkandi.
  • Ekki má snýta sér eftir aðgerð fyrr en sólarhringur er liðinn frá því að tróðið er fjarlægt. Óhætt er að sjúga varlega upp í nefið nokkrum tímum eftir að tróðið er tekið.
  • Haldið kyrru fyrir í u.þ.b. viku eftir aðgerð. Forðast ber alla áreynslu, s.s. rembing, að lyfta þungum hlutum, líkamsrækt, o.s.frv. Einnig ber að forðast mikinn hita, t.d. sólböð/ljós, gufuböð eða heit böð.

Nefkirtlataka

Nefkirtlar
Þó að nefkirtlarnir séu í rauninni einn samvaxinn massi, er alltaf talað um þá í fleirtölu. Þeir sitja í nefkokinu fyrir ofan og aftan mjúka góminn og eru svipaðrar gerðar og hálskirtlarnir. Öll börn hafa nefkirtla, en mjög misstóra. Frá sjö eða átta ára aldri minnka þeir smám saman og hverfa venjulega um kynþroskaaldur. Stundum getur þurft að taka nefkirtlana úr börnum. Það er gert í svæfingu. Séu nefkirtlarnir teknir á unga aldri, getur verið að þeir vaxi aftur.

Helstu ástæður aðgerðar eru:

  • Stórir kirtlar, sem valda öndunarörðugleikum á nóttunni með hrotum og jafnvel kæfisvefni.
  • Stórir kirtlar, sem loka fyrir kokhlustir og valda sýkingu eða vökvasöfnun í miðeyrum.
  • Stórir kirtlar sem valda stöðugu horrennsli þrátt fyrir sýklalyfjameðferð.

Undirbúningur fyrir aðgerð

  • Kvöldið fyrir aðgerð þarf barnið að fara í sturtu/bað. Best er að það klæðist hreinum, þægilegum fatnaði sem ekki þrengir að í hálsmáli eða mitti.
  • Halda skal barninu fastandi á allan mat og drykk frá miðnætti kvöldið fyrir aðgerð, nema annað sé ákveðið af lækni.
  • Mæta skal með barnið á Handlæknastöðina á upp gefnum tíma en búast má við að einhver bið verði þar til að aðgerð komi.
  • Fyrir aðgerðina fá sum börn róandi endaþarmsstíl.

Aðgerðin
Aðgerðin tekur oftast stutta stund. Barnið er látið anda að sér svæfingarlyfinu gegnum grímu og er foreldi hjá því á meðan það sofnar, en bíður svo frammi meðan á aðgerðinni stendur.

Eftir aðgerðina

  • Barnið vaknar hjá foreldri sínu í herbergi inn af aðgerðarstofunni og er látið jafna sig þar í ½-1 klst. áður en það má fara heim.
  • Barnið má drekka strax og það er vel vaknað. Heppilegast er að barnið fái mjúkan mat aðgerðardaginn, en sitt venjulega fæði eftir það
  • Halda þarf barninu heima í 1-3 daga eftir aðgerð, eftir fyrirmælum læknis.
  • Oft rennur dálítið af blóðlituðu slími út úr nefinu fyrst eftir aðgerðina.
  • Ef blæðingar verður vart er rétt að hafa samband við aðgerðarlækninn. Ef ekki næst í hann þá hafið strax samband við vakthafandi lækni á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi gegnum skiptiborð sjúkrahússins en síminn er 5431000.
  • Hitaslæðingur allt að 38°C er ekki óeðlilegur einn dag eftir aðgerð. Hafið samband við lækni ef hiti hverfur ekki eða ferð hækkandi.
  • Börn eru yfirleitt ekki boðuð í eftirlit eftir nefkirtlatöku nema sérstök ástæða sé til staðar.

Ofsvitamyndun

Ofsvitamyndun eða óeðlileg svitamyndun/ (hyperhydrosis).
Aðgerð vegna óeðlilega mikillar svitamyndunar.

Að svitna mikið er ástand sem getur valdið einstaklingum miklum óþægindum.  Það geta fundist skýringar á þessi ástandi en oft er enga sérstaka skýringu að finna. Algengast er að svitna mikið í armkrikum. Alltaf er reynt að meðhöndla þetta ástand með öðrum aðferðum svo sem sérstökum svitalyktaeyðum og lyfjum áður en gripið er til aðgerða.

Sú aðgerð sem framkvæmd er á Handlæknastöðinni í Glæsibæ felur í sér að notað er sogtæki til þess að fjarlægja svitakirtla undir húð í armkrikum.

Aðeins þarf lítinn skurð (um 1 cm) og mælt er með að framkvæma þetta í stuttri svæfingu og tekur aðgerðin um 20 mínútur.

Orri Þór Ormarsson

Barnaskurðlæknir – Almennar skurðlækningar

Ófrjósemisaðgerð ('Herraklipping')

Deyfingin sem gefin er við aðgerðina fer úr eftir u.þ.b. eina og hálfa klukkustund.Þá máttu búast við þyngslum og óþægindum í pungnum það sem eftir lifir dags og jafnvel næsta dag.Óþægindin hverfa oftast eftir 2-3 daga en í einstaka tilvikum sitja þau lengur í.Ráðlegt er að taka verkjalyf (paratabs, íbúfen) strax að aðgerð lokinni, jafnvel skömmu fyrir aðgerð og síðan eftir þörfum.Einnig er gott ráð að klæðast nærfötum sem halda vel að pungnum, og það getur verið gott að halda einhverju köldu að pungnum eftir aðgerðina (til verkjastillingar og til að minnka líkur á blæðingu).

Skurðsárinu er lokað með saumum sem eyðast á 2-3 vikum.Ef leifar af saumnum eru enn til staðar eftir 3 vikur er óhætt að toga þá úr eða klippa í burtu.

Óhætt er að fara í sturtu daginn eftir aðgerðina.

Algengustu aukaverknir eftir aðgerðina eru lítils háttar blæðing og bólgur í skurðsárinu ásamt fyrrnefndum eymslum í pungnum.Blæðing getur stundum valdið því að húðin í pungnum verður bláleit (marblettur sem hverfur á nokkrum dögum).Örsjaldan gerist það að blæðingin verður meiri og blóðsöfnun á sér stað í pungnum.Lítils háttar blóðsöfnun hverfur á 2-3 vikum en stærri blæðing getur verið sársaukafull og í einstaka tilvikum getur þurft að opna skurðsárið og hleypa blóðinu út til að létta á þrýstingnum í pungnum.Ef pungurinn fer að þenjast út skömmu eftir aðgerðina ættir þú að leita á bráðamóttöku Landspítalans.

Ráðlegt er að forðast líkamlega áreynslu í 2-3 daga eftir aðgerðina en flestir geta snúið aftur til vinnu eftir 1-2 daga (fer eftir því hvaða atvinnu þú stundar).

Ráðlegt er að stunda ekki kynlíf fyrstu vikuna eftir aðgerðina.

Eftir 2-3 mánuði þarft þú að skila inn sæðisprufu til að athuga hvort aðgerðin hafi heppnast.Ef mikið magn sáðfruma er til staðar í sæði eftir aðgerðina getur það bent til þess að sæðisleiðararnir hafi vaxið aftur saman (það gerist í <0,5% tilvika) og þá getur þurft að endurtaka aðgerðina.Áður en þú skilar sæðisprufunni er æskilegt að þú hafir haft sáðlát í a.m.k. 20-25 skipti til að hreinsa út þær sáðfrumur sem voru til staðar í sáðblöðrum og sáðgöngum þegar aðgerðin fór fram.Þegar þú hefur skilað inn sæðisprufunni hefur læknir þinn samband við þig og tilkynnir þér niðurstöðurnar.Aðeins þegar sæðisprufan sýnir að sáðfrumurnar eru horfnar úr sæðinu getur þú litið svo á að þú sért orðinn ófrjór.Þangað til þarft þú að notast við aðrar getnaðarvarnir til að fyrirbyggja getnað.

Ófrjósemisaðgerð hefur ekki áhrif á kyngetu þína og veldur ekki stinningarvanda.

Slím og vökvi í miðeyra

Um eyrað
Miðeyrað er innan við hljóðhimnuna. Það er loftfyllt holrúm sem í eru m.a. heyrnarbeinin: hamar, steðji og ístað. Miðeyrað fær eðlilega loftrás um kokhlustina sem tengir miðeyrað við kokið. Á hverju ári angrar vökvasöfnun í miðeyra allt að helming barna yngri en 6 ára.

Orsakir
Orsakir vökvasöfnunar í miðeyra eru: Eftirstöðvar eftir miðeyrnabólgu, vegna lokunar á kokhlust samfara sýkingum í efri loftvegum, vegna stækkunar á nefkirtli eða aðrar, þar með talið misræmi í vaxtarhraða kokhlustar, koks og kúpubotns.

Einkenni
Sumir eru einkennalausir með öllu. Aðrir fá hellu fyrir eyrun, minnkaða heyrn, eftirtektarleysi sem afleiðingu af minnkaðri heyrn, óróleika, eirðarleysi og óværð, lystarleysi

Meðferð
Hafa ber í huga að stór hluti lagast af sjálfu sér með tímanum. Meðhöndla ber undirliggjandi orsakir svo sem sýkingar í efri loftvegum. Ef vökvi hverfur ekki þarf stundum að grípa til aðgerða, s.s. hljóðhimnuástungu. Þá er vökvinn sogaður út. Í flestum tilvikum eru örsmá rör sett í gatið í hljóðhimnunni. Þau sjá um að jafna þrýstinginn inn í miðeyrað til lengri tíma. Líkaminn reynir að losa sig við rörin og tekst það venjulega eftir 4-5 mánuði. Þá detta rörin úr. Ef nefkirtill lokar fyrir kokhlust er hann fjarlægður samtímis ástungunni. Þessar aðgerðir eru gerðar í svæfingu.

Undirbúningur fyrir aðgerð
Ef svæfa á barnið þarf að:

  • Kvöldið fyrir aðgerð þarf barnið að fara í sturtu/bað. Best er að það klæðast hreinum, þægilegum fatnaði sem ekki þrengir að í hálsmáli eða mitti.
  • Halda því fastandi á allan mat og drykk frá miðnætti kvöldið fyrir aðgerð, nema annað sé ákveðið af lækni.
  • Mæta skal með barnið á Handlæknastöðina á upp gefnum tíma en búast þarf þó við að einhver bið verði þar til að aðgerð komi.

Aðgerðin
Aðgerðin tekur oftast stutta stund. Barnið er látið anda að sér svæfingarlyfinu gegnum grímu og er foreldri hjá því á meðan það sofnar, en bíður svo frammi á meðan á aðgerðinni stendur.

Eftir aðgerðina

  • Barnið vaknar hjá foreldri sínu i herbergi inn af aðgerðarstofunni og er látið jafna sig þar í ½-1 klst. áður en það má fara heim.
  • Barnið má drekka strax og það er vel vaknað.
  • Gera má ráð fyrir verkjum í eyrum fyrstu klukkustundina eftir aðgerð.

Þegar heim er komið

  • Oft rennur blóðlitaður vökvi úr eyrum fyrstu 2-3 dagana eftir aðgerð. Hafðu samband við aðgerðarlækninn ef rennsli stöðvast ekki að þeim tíma liðnum.
  • Hreinsið vökvann af eyranu og úr opi hlustargangsins. Farið ekki inn í hlustina.
  • Daginn eftir aðgerðina má barnið fara út aftur, í skóla eða leikskóla.
  • Forðast ber að kafa í sundlaugum og stunda böð í óhreinu vatni, nema með vatnsfælna bómull eða silikontappa í hlustaropi og sundhettu.
  • Yfirleitt er barnið boðað í eftirlit að 1-2 vikum liðnum frá aðgerð.

Vökvi í pung (vatnspungur)

Orsök
Þegar gangur sá í nára sem eistu nota til að færast frá kvið og niður í pung (gerist í fósturþroska) lokar sér ekki getur vökvi sem er í kviðarholi runnið niður í pung sem við það þenst út. Ef opið er stórt myndast kviðslit (sjá umfjöllun um kviðslit) en ef gangurinn er grannur er það bara vökvi sem kemst um hann.

Algengt form er þegar vökvi í pung er til staðar við fæðingu en gangurinn fyrir ofan hefur lokað sér. Þegar um það er að ræða þarf ekki aðgerð og vökvinn hverfur á nokkrum mánuðum. Hitt algenga formið er þegar að gangurinn lokar sér ekki og vökvi frá kviðarholi getur runnið milli kviðarhols og pungs. Ef um þetta form er að ræða þarf að gera aðgerð.

Einkenni
Einkenni er stækkaður pungur.  Ef pungur er stækkaður en það verður ekki breyting á stærð hans er þetta líklegast formið sem ekki þarfnast aðgerðar. Ef pungur hinsvegar breytist, er stundum stærri eða minni, þá er þetta sennilega það form þar sem gangurinn er opinn og aðgerðar er þörf.

Óþægindi og roði geta verið til staðar en langoftast eru ekki önnur einkenn en stækkaður pungur.

Meðferð
Aðgerðin er framkvæmd í svæfingu og tekur u.þ.b. 15 mínútur.Gerður er um 2-3 cm skurður í nára og gangi í nára er lokað

Barnið mætir fastandi til aðgerðar (sjá leiðbeiningar um föstu) og fer heim u.þ.b. 30-60 mínútum eftir aðgerð. Fyrstu tvo sólarhringana eftir aðgerð gæti barnið þurft verkjastillandi meðferð með parasetamoli 20mg/kg á 4 tíma fresti.

Eftir aðgerð er ráðlegt að halda barninu frá krefjandi leik eða leikfimi og æfingum í 2 vikur. Sári skal halda þurru þar til saumar eru teknir en oftast eru þó engir saumar sem þarf að taka.

Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir